Um Pálma

Pálmi er fæddur árið 1969 í Kópavogi, sá níundi í röð tíu systkina. Hann er kvæntur fjögurra drengja faðir sem hefur frá unga aldri haft brennandi áhuga á tækni, hvernig hlutir virka og sköpuninni sjálfri. Hann heillaðist af náttúru Íslands þegar hann var sendur austur í Suðursveit átta ára gamall og ílengdist þar fram yfir tvítugt. Eftir að hafa komið víða við ákvað hann að leggja stund á iðnhönnun í Design Academy Eindhoven í Hollandi þaðan sem hann útskrifaðist árið 2000 og var verðlaunaður fyrir lokaverkefni sitt Robert.

Pálmi starfaði sem verkefnastjóri, hönnuður og síðar deildarstjóri rannsókna- og þróunarsviðs hjá Össuri hf. á Íslandi frá 1994 til 2004 og til 2010 hjá Ossur Americas í Kaliforníu og standa eftir hátt í eitt hundrað einkaleyfi á hans nafni í eigu fyrirtækisins.

Frá árinu 1991 rak hann samhliða öðrum störfum eigið hönnunar- og ráðgjafafyrirtæki; pe design á Íslandi og designhouseone í Bandaríkjunum og hélt með því sköpunarkraftinum við. Árið 2012 stofnaði hann Geisla hönnunarhús en þar hannar hann og framleiðir módel leikföng, gjafavörur og minjagripi meðal annars út frá fræðum sem kölluð eru „Blóm lífsins“ og notar gamlar rúnir og tákn í hönnun sinni sem hefur iðulega djúpa merkingu og sögu. Vörur Geisla eru seldar á heimasíðum og í verslunum um land allt og hefur verið vel tekið, bæði af Íslendingum og ferðamönnum. Pálmi býður einnig upp á hönnunarráðgjöf og geislaskurð og hefur frá stofnun þjónustað hundruð ólíkra viðskiptavina. Fjölhæfni hans hefur gert honum kleift að reka fyrirtækið með lágmarks tilkostnaði, því auk þess að hanna og framleiða allar sínar vörur, hannar hann vörumerkið, innviðina, markaðsefnið, vefsíðuna, vörulistana og tekur allar ljósmyndirnar.

Pálmi hefur fengist við kennslu hjá Listaháskóla Íslands og verið óstöðvandi í að afla sér dýpri þekkingar á tækni og sköpuninni í sinni víðustu merkingu og möguleikum til að skapa friðsælli og sjálfbærari heim og eru Edengarðar Íslands sem dæmi hugarfóstur hans.

Pálmi hefur hannað mikið af vörum í gegnum árin og hefur reynslan kennt honum að það sé nánast ekkert sem ekki sé hægt að leysa á farsælann hátt ef spilling og eiginhagsmunasemi er ekki að þvælast fyrir. Pálmi hefur talað um fyrir því seinustu árin að við eigum að snúa okkur að matvælaframleiðslu í auknu mæli (Edengarðar Íslands) enda séu auðlindir landsins vel til þess fallnar í að framleiða ávexti og grænmeti sem hingað til hefur verið flutt inn í stórum stíl en með mikilli aukningu ferðamanna til landsins sé gríðarlegt tækifæri í því að framleiða sem mest hér á landi fyrir gesti okkar þannig að sem mestur gjaldeyrir verði eftir í landinu.

Ferilskrá (smelltu hér)