Hvert skal halda

Til þeirra er málið varðar.

Mikið hefur gengið á í samfélagi okkar Íslendinga á seinustu dögum og árum og virðist mikil undiralda óánægju breiðast út yfir landið sökum spillingar embættismanna og annara stjórnenda samfélagsins. Við höfum gengið í gegnum ýmislegt á seinustu 9 árum en við m.a. stóðum af okkur eitt stærsta efnahagshrun í sögu mannkyns sem varð til vegna ofsagræðgi og spillingar örfárra aðila.

Eftir að Íslandi var hent í "ruslflokk" þá reis fólkið í landinu upp og endurreisti hagkerfið með því að taka á móti gestum og gangandi og hefur ferðaþjónustu-iðnaðurinn skapað fleiri störf en nokkur annar iðnaður í sögu okkar Íslendinga á fáum árum. Við erum gestrisið gott fólk og höfum frá mörgu að segja og eigum margt gott að sýna gestum okkar. 

Ég hef fylgst grannt með þróun mála bæði hér á landi og annars staðar í heiminum seinustu árin og lagði af stað fyrir nokkrum árum að kynna fyrir Íslendinum þá framtíðarsýn sem ég persónulega taldi skynsamlega byggða á auðlindum, þekkingu og reynslu okkar. Það eina sem ég lagði upp með í þá för var að sýna fólki fram á að það væru aðrir möguleikar fyrir hendi en yfirleitt er talað um þegar kemur að efnahagsuppbyggingu og atvinnusköpun til framtíðar fyrir afkomendur okkar. 

Margir frambjóðendur hafa komið fram á seinustu dögum sem bjóða fram þjónustu sína í að leiða landið til næstu fjögurra ára en í mínum huga er Forseti Íslands leiðtogi landsins (þjóðar-leið-togi) og leiðtogar landa ættu að hafa vel skilgreinda hugmynd hvert þegnar þeirra vilja stefna. Það er mjög erfitt að leiða ef ekki er vitað hvert stefnt er.

Það sem mér persónulega finnst vera vandamál er eftirfarandi:

1) Almenn gildi samfélagsins - Það vantar stutt gildi sbr. gildi sem mörg fyrirtæki setja sér sem eiga að vera að leiðarljósi fyrir alla sem taka þátt í rekstri og uppbyggingu fyrirtækisins. Ég gerði dæmi um slík gildi fyrir Edengarða Íslands á sínum tíma sem voru: Ást, umhyggja og samvinna. Þetta var bara eitthvað sem mér datt í hug þegar ég skrifaði fyrirlesturinn en hugmyndin var alltaf, að við sem samfélag myndum sameinast um þau gildi sem að leiðarljósi yrðu höfð til framtíðar.

2) Markmið til framtíðar - Markmið sem við getum öll sett uppá vegg og haft að leiðarljósi. Þessi markmið þurfa að vera einföld og þannig að allir skilji í hvaða átt við sem samfélag viljum reyna að ganga í sameiningu með okkur sjálf og afkomendur okkar í huga.

Þessi markmið þurfa að taka mið af þörfum okkar allra en það er mín skoðun að þarfir okkar allra séu þær sömu því allir geta lent í öllu, alltaf. Við höfum hingað til haft mismunandi "stjórmálaöfl" með mismunandi markmið en þegar markmið þessara hópa eru rýnd ofan í kjölinn eru þau mjög mikið lituð af eiginhagsmunum og eigingirni örfárra en ekki hag fjöldans. 

Ef við sem þjóð höfum ekki sameiginleg heildarmarkmið til þess að vinna að þá verðum við alltaf hlaupandi í allar áttir og endalaust skiptandi um lit á liðum og ekki næst viðunandi árangur, en það eru afkomendur okkar sem munu líða fyrir stefnu- og liðsheildarleysi okkar. Það þarf ekki að vera búið að leysa tæknilega þessi markmið nú, heldur hugsa markmiðin þannig að allt sé hægt þó svo við sjáum ekki lausnir á markmiðinu sem stendur. Þetta ætti að vera óskalisti yfir það sem við viljum sjá okkur ná fram á næstu árum eða áratugum.

Það sem væri gaman að reyna er að draga saman gildi og markmið sem allir geta hengt upp á vegg heima hjá sér og gert þá sitt til þess að ná þeim fram í framtíðinni. (Þetta er nákvæmlega það sama og flest fyrirtæki gera en sjórnendur setja sér "yfir markmið" og þá vinna allir sem einn að þeim verkefnum sem styðja við yfirmarkmið fyrirtækisins).

Þar sem það líður að Forseta kosningum 2016 og svo Alþingiskosningum þá væri tilvalið að við reyndum búa til bæði gildi og markmið fyrir næstu stjórnendur okkar þannig að þau viti hvert fólkið í landinu vilja stefna.

Hér á arfurinn.is höfum við sett þau skrif og umfjallanir um það sem ég hef persónulega mælt fyrir á seinustu árum þegar kemur að framtíð okkar í atvinnumálum, fjármálum, stjórntækjum og sjálfbærni en sjálfbærni er það orð sem mest hefur að mínu mati verið misnotað af stjórnendum seinustu tugi ára. Þetta er alltaf notað fyrir kosningar en ég hef lítið sem ekkert séð breytast í þessum efnum og í raun hefur það bara versnað eftir að við fórum að taka við yfir milljón gesta á ári. Gríðarlegt magn af matvælum, olíu og öðru þarf að flytja inní landið til þess að mæta þessari þörf en að mínu mati höfum við allt til staðar í landinu til þess að gera okkur meira og minna sjálfbær á örfáum árum ef vilji er fyrir hendi.

Á þessari síðu höfum við sett upp greinar, viðtöl og kynningar er viðkoma sjálfbærni, sjálfstæði og framtíðarmöguleikum. Við hvetjum fólk til að kynna sér efnið og taka þátt í umræðu og umfjöllun á Fésbókarsíðu okkar.

Á Fésbókarsíðu okkar er hugmyndin að setja upp skoðanakannanir þar sem fólk getur hjálpað til við að velja GILDI og MARKMIÐ til framtíðar með því að líka við eða ekki það sem um er spurt eða rætt. 

Síðan myndum við setja þessi gildi, markmið og stefnu okkar á þessa vefsíðu sem myndi vera í eigu samfélagsins og þá virka sem viðmið fyrir stjórnendur landsins til framtíðar.

Ég bið ykkur kæru Íslendingar að leggja til hliðar ágreining dagsins í dag og spyrja ykkur sjálf að því, hvernig framtíð við viljum sjá fyrir afkomendur okkar, og ekki síst, hvernig við eigum að fara að því.

Sjálfur er ég ekki í nokkrum vafa að vandamál okkar séu auðleyst ef rétt er á málum haldið. Ef það er eitthvað sem ég hef lært þá er það þetta: Fólk kann nánast allt og getur leyst allt ef það vinnur saman: Í dag höfum við Internet, eða innra net til þess að taka þátt og tengja okkur saman í stórum hópum til þess að ráðfæra okkur við hvort annað. 

Takk takk